Bæjarpósturinn
Kvöld í bíó.
Allflestir hafa gaman af að
fara í bíó, og hjá mörgum er það einasta skemmtunin, sem þeir eiga kost á.
Við Siglfirðingar getum tekið
undir með konunni, sem sagði, að hún gæti setið bíó, þó að hún sæi enga
myndina. Því að þar væri svo dásamlega gott að vera
Það var nú ekki hér á Sigló,
sem þetta var sagt um bíóið, ekki aldeilis. Við, sem höfum komið í bíó
td. á Akureyri, Reykjavík eða Akranesi, þar sem nýtísku kvikmyndahús eru
rekin og saman fer góð umgengni, þægileg sæti og prúð framkoma, bæði hjá
starfsfólki og sýningargestum, förum með kvíða og viðbjóði inn í þetta
óvistlega bíó hér.
Og víst er það, að ekki verða
allar bíóferðir til ánægjuauka. Ef einhverjir efast um orð mín skulu þeir
fara í bíó og reyna viðskiptin.
Og hér kemur stutt lýsing á
einu "kvöldi í bíó". Dragonwyck er allgóð mynd, ég brá mér þess vegna,
ásamt manni mínum, til þess að sjá hana síðastliðið mánudagskvöld.
Eitt af því fyrsta, sem
athygli vekur þegar inn í "forsalinn" kemur er dyravörðurinn. Hann er
hvorki stór né sterklegur né líklegur til þess að standa af sér mikinn
troðning og ólæti uppivöðsluseggja, heldur er þar unglingspiltur,
líklegast rétt kominn yfir það aldurstakmark að mega vera úti á síðkvöldum
og sækja kvikmyndasýningar nema í "fylgd með foreldrum".
Hér vísar enginn til sætis. Þið
kynnuð nú að segja, að slíkt sé óþarfi og er það kannski, en þá þarf bara
að merkja sætin greinilega. Það tók okkur dálitla stund að finna sætin
okkar. Sumstaðar hafði verið krassað yfir númerin og á örum stöðum voru
þau horfin með öllu.
Þegar við höfðum fundið sætin,
kom í ljós, að setuna vantaði í annað þeirra, en við nánari athugun kom
hún í ljós á gólfinu! Hin setan datt líka úr þegar sætið var hreyft.
Klukkan. var alveg að verða 9-
og búið að hringja, en samt stóð margt af unglingum út með veggjum og fram
við dyr- og þegar ljósin voru slökkt og sýning hófst, þá byrjaði eitt
heljarmikið kapphlaup og hrindingar við að komast í sætin- og tók það
dágóða stund. Nú skyldi maður ætla, að friður væri komin á, en það var nú
ekki aldeilis, nú fyrst byrjaði skröltið og skrattagangurinn.
Manngarmur, sem hélt sig vera
enskan, stóð upp framarlega í áhorfendabekkjum og tók að ávarpa
mannskapinn: "Ladies and gentlemen etc." -Má vera, að hann hafi verið
innfæddur, við eigum nóg af slíkum rónum, þó að svo væri ekki.
Brátt yfirgnæfði hávaðinn fram
við dyrnar allt annað. Þar stóð allstór hópur í háværum samræðum.
Köll og blástur, skellir í
stólsetum ráp um dyrnar og tómar flöskur eru látnar velta um gólfið.
Nokkrar ungar stúlkur hlógu eins og vitfirringar og hættu ekki fyrr en
fleiri voru farnir að horfa á þær en myndina. Mér verður á að spyrja,
hvaða erindi á svona fólk í bíó? Væri því ekki sæmra að fíflast í einrúmi?
Í hléinu reykti hver,
sem honum sýndist í sæti sínu, jafnvel kvenfólkið var ekki undanskilið.
Er nokkuð undarlegt þó að
aðkomufólk, sem gistir Siglufjörð og kynnist bíómenningu okkar, segi að
hér búi aumasti skríll þessa lands?
Og er nokkur hissa á því, þó
að sæmilega siðað fólk kinoki sér við að sækja þennan skemmtistað, sem svo
mjög hefur orðið frægur fyrir eindæma ómenningu í margskonar myndum, allt
frá sóðaskap upp í skrílslæti.
Á veturna er ekki í annað hús
að venda, ef menn vilja sækja bíó, því að bíó Alþýðuhússins starfar, sem
kunnugt er aðeins yfir sumarmánuðina. Þar er ólíkt friðvænlegra, þó að margt
mætti betur fara, en ég verð því fegnust, þegar það hefur starf sitt á ný.
4. febrúar 1948.
Bíógestur. |