Mjölnir 14. apríl 1948
Bæjarpósturinn
Ánægjuleg kvöldstund.
Oft verður okkur Íslendingum það á að skapa í hugum okkar kalda og
hrjóstruga mynd af landinu okkar.
Að minnsta kosti hættir okkur
til þess, sem búum með ströndum fram, umlukt háum, hrikalegum fjöllum og
búum við erfiðar samgöngur. Fegurð landsins meitlast í hug okkar sem hin
kalda, hrjúfa en tignarlega fegurð, mikilúðleg og óhlífin.
Samt vitum við, að Ísland á
ótal staði, sem sýna gagnstæðar myndir. þar sem hin blíða, ljúfa og
tignarlega náttúra birtist í sínu yndislega skrúði, sinni óendanlegu
fegurð.
Síðastliðið. föstudagskvöld fór
ég í bíó til að sjá kvikmyndir Kjartans Ó Bjarnasonar, frá Heklugosi,
skíðalandsmóti ofl.
Það verð ég að segja, að
sjaldan hef ég orðið jafn gagntekinn af að sjá fegurð og hrikaleik
Íslenskrar náttúru eins og þetta kvöld.
Ég hefi ekki átt þess kost að
ferðast um landið mitt, en þarna fékk ég að sjá nokkra fegurstu staði
landsins, ásamt þeim stórkostlegasta leik, sem Íslensk.náttúruöfl leika, -
Heklugosið.
Kjartan Ó. Bjarnason á þakkir
skildar fyrir komuna og þá góðu landkynningu, sem hann flytur
okkur-fáförulum mönnum - sem bundnir erum við störf og skyldur þann tíma
ársins er náttúran skrýðist sínu fegursta.
Yfirleitt eru myndirnar
ljómandi vel gerðar og teknar við hin ólíklegustu tækifæri og oft erfið
skilyrði.
Það var vissulega ánægjuleg
kvöldstund.
Áhorfandi |