Bæjarpósturinn
"Sjón er sögu ríkari."
Já, sjón er sögu ríkari, sögðu margir er þeir höfðu heyrt og séð
"kvikmyndaafrek" Lofts, þættina "Sjón er sögu ríkari," sem hann sýndi í
Nýja Bíó fyrir síðustu helgi.
Sagan af þessu
"kvikmyndaafreki" hefur þó ekki verið á eina leið, því flestir, sem séð
höfðu, réðu frá því að sækja þessa tólf krónu og fimmtíu aura sýningu.
En Loftur sjálfur sagði, að
þetta væri einstætt tækifæri til að kynnast ýmsum fremstu listamönnum
vorum. Og sjón varð sögu ríkari. Flestum, ef ekki öllum, sem sáu, þótti
sér stórlega misboðið, að selja inn á slíkt á kr. 12.50 - og í öðru lagi
þótti þeim, að listafólki því sem þarna kom fram væri stórlega misboðið
með þeirri ranghverfu á list þess, sem þarna, var boðin fólki, sem góð og
gild vara.
Ég held að Loftur og aðrir
slíkir kvikmyndarar ættu að hvíla sig um sinn, því íslenskt fólk er ekki
þeir bjálfar, að það gíni við hverju því fúski á sviði kvikmynda, - sem
einhverjum dettur í hug að sýna því, bara af því að það er íslenskt og
tilraun.
Íslenskir kvikmyndatökumenn
hafa sýnt að þeir geta tekið kvikmyndir af náttúru landsins og atvinnulífi
og eru þar eflaust fremstir Kjartan Ó. Bjarnason og Óskar Gíslason, og þær
myndir þykir fólki gaman að sjá og vill fá meira af slíku.
En það frábiður sér tilraunir
Lofts og vill heldur að hann haldi áfram iðju sinni sem ljósmyndari, því
þar nýtur hann trausts og virðingar. Og eflaust fagnar fólk því, þegar hann
hefur náð sama stigi í kvikmyndagerð og í ljósmyndagerð, en vill ekki
borga ærna peninga til að horfa á tilraunir hans.
Þær getur hann bara sýnt
góðvinum sínum og látið þá gagnrýna þær. |