Frétt í Siglfirðing, 6 júní 1931
Síldveiðin.
Stöðvast hún alveg?
Útvarpið færi okkur þær fregnir eigi alls fyrir löngu, að síldarbræðsluverksmiðjur Dr. Paul og S.Goos hér í bænum, mundu ekki verða starfræktar í sumar, og verksmiðjan í Krossanesi að mjög litlu leyti.
Um rekstur ríkisverksmiðjunnar var það sagt, að óvíst væri um það, að hve miklu leyti hún yrði starfrækt.
Stjórn hennar hefir komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé hægt að greiða meira en 3 kr. fyrir síldarmálið í mesta lagi.
Og eftir lögum verksmiðjunnar um 70 prc. útborgun áætlaðs afurðaverðs, yrði þá útborgun 2,10 á hvert mál síldar.
Hvort nokkurn tíma fæst meira, er að sjálfsögðu komið undir sölu afurðanna og reksturskostnaði. Hér er um alvarleg tíðindi að ræða.
Að vísu hafði áður heyrst, að óvíst væri um starfrækslu hjá Dr. Paul, en menn höfðu almennt vonað, að fram úr því mundi rætast.
Nú virðist sú von vera horfin með öllu. Þá er ríkisverksmiðjan, þessi bjargvættur útgerðarinnar. Hvað gerir hún? Hjálpar hún þegar mest á ríður?
Ef hún ekki gerir það, þá er til lítils barist. Þegar allir vilja kaupa bræðslusíld og borga vel fyrir, þá er hennar engin þörf. þegar kaupendum fækkar, þá fyrst reynir á gagnsemi hennar.
Og þá kemur hjálpræðið. Tvær krónur og tíu aura geta sjómenn fengið fyrir málið. Meira ekki, nema ef reksturskostnaður fer ekki fram úr áætlun og ef afurðaverðið fellur ekki meir. En hverjir geta veitt síld fyrir þetta verð? því er fljótsvarað.
Ef nokkur síldveiði á að verða, þá verður annaðhvort verð hennar að hækka, eða vinnu launin að lækka. -
Framsóknarstjórnin hefir unnið að þessum aðstæðum með óviturlegum ráðstöfunum. Hún hefir valdið verðfalli afurðanna að mestu leyti, og stuðlað að hækkun kaupgjalds. Hvorugt er hún fær um aðlaga aftur.
Afleiðingin verður því sú, að atvinnuvegirnir stöðvast, atvinnuleysið eykst og afkoma þjóðarinnar fer versnandi með ári hverju.
Munum þetta 12. júní. |