Frétt í Fram, 14. ágúst 1920
Síldin.
Sami landburður af síld þessa viku, og hefur svo mikið veiðst, á ekki fleiri skip en héðan stunda veiði nú, að ekki hefur verið hægt að hafa undan í !andi, veldur því mest tunnuleysi, plássleysi og svo fólksekla.
Stúlkurnar falla í valinn með sárar hendur, eftir skorpuna, en þær rísa upp bráðlega aftur og eru þá magnaðri en nokkru sinni áður. Einnig hefur inflúensa í skipunum tálmað veiði.
Á tveim sólarhringum fengu Sameiginlegu íslensku verslanirnar rúm 4.000 mál síldar til bræðslu og var það mest alt spriklandi ný síld. Kaup hefur þotið upp úr öllu valdi, almennt verkakaup hefur orðið 5 til 7 kr. á tímann og alt að 3 krónur borgað fyrir að kverka og salta eina síldartunnu, hafa margar stúlkur leikið sér að hafa á annað hundrað krónur yfir nóttina.
Síldin hefur mest verið veidd hér út úr firðinum og þykjast menn aldrei hafa séð slíkt síldarmagn áður, allur sjór morandi í síld. Síldartorfur hafa sést hér inni á höfn, en mjög sjaldgæft að síld hafi gengið hér inn á fjörðinn, fyrr en þá að haustinu, eftir að skip hafa verið farin.
Um síðustu helgi voru hér í Siglufirði saltaðar 45 þúsund tunnur. Á Eyjafirði 7 þúsund á Ströndum milli 6 og 7 þúsund, en þar fyrir vestan mjög lítið.
Nú munu hér söltuð milli 60 og 70 þúsund og mikið á Eyjafirði; þangað hefur svo mikið verið sent héðan þessa viku, vegna þess að ekki varð tekið á móti hér í svipinn.
Alltaf virðist síldarmagnið verða meira og má því búast við sömu veiði fram á haust, haldist góð tíð. |