1917 | 1918 | 1919 | 1920 | 1921 | 1922 | 1923 | 1924 | 1925 | 1926 | 1927 | 1928 | 1929 | 1930 | 1931 | 1932 | 1933 | 1934 | 1935 | 1936 | 1937 | 1938 | 1939 | 1940 | 1941 | 1942 | 1943 | 1944 | 1945 | 1946 | 1947 | 1948 | 1949 | 1950

>>>>>>>>>>> 1920

 

Til forsíðu
Til baka
Hugleiðingar
Fóðurbætir




Ljósmyndasafn Steingríms
á netinu.

Steingrímur Kristinsson Siglufirði
G-892-1569
S-467-1569

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mjöl & lýsis-Saga

Ýmsar fréttir og auglýsing

Frétt í Fram, 7. ágúst 1920

Síldin.

Uppgripa veiði má heita þessa viku. Mörg af skipum komið inn fleirum sinnum í sólarhring og eru nokkur þeirra búin að fá hátt á annað þúsund tunnur. Mest heldur síldin sig á Skagafirði og hér út af Siglufirði og svo mikla síld hafa skip hitt í að sleppa hefur orðið úr nótinni.

 

Mest er síldin upp í harðalandi, þó hefur þessa viku einnig veiðst mikil síld utan landhelgi. Segja þeir sem kunnugir eru að síldin hagi nú göngu sinni eins og á bestu síldarárunum í gamla daga, og síldarmagnið sé með allra mesta móti og alt sem bendi á að síldin haldist lengi.

 

Hún má heita hér með öllu landi, inni á Eyjafirði á móts við "Múlann" hafa Eyjafjarðarskip tekið síld. Slær nú heldur í baksegl hjá þeim sem fullvissir voru orðnir um það að síld væri lögst frá norðurlandi og flutt vestur á bóginn.

 

Fyrir vestan er lítil síld og hingað hafa skip komið síðustu daga þaðan að vestan, sem höfðu enga síld fengið og tók eitt þeirra 700 tunnur fyrsta sólarhringinn sem það var hér.

 

Hér í Siglufirði munu nú söltuð nær 35 þúsund tunnur. 

Frétt í Fram, 14. ágúst 1920 

Síldin.

Sami landburður af síld þessa viku, og hefur svo mikið veiðst, á ekki fleiri skip en héðan stunda veiði nú, að ekki hefur verið hægt að hafa undan í !andi, veldur því mest tunnuleysi, plássleysi og svo fólksekla.

 

Stúlkurnar falla í valinn með sárar hendur, eftir skorpuna, en þær rísa upp bráðlega aftur og eru þá magnaðri en nokkru sinni áður. Einnig hefur inflúensa í skipunum tálmað veiði.

 

Á tveim sólarhringum fengu Sameiginlegu íslensku verslanirnar rúm 4.000 mál síldar til bræðslu og var það mest alt spriklandi ný síld. Kaup hefur þotið upp úr öllu valdi, almennt verkakaup hefur orðið 5 til 7 kr. á tímann og alt að 3 krónur borgað fyrir að kverka og salta eina síldartunnu, hafa margar stúlkur leikið sér að hafa á annað hundrað krónur yfir nóttina.

 

Síldin hefur mest verið veidd hér út úr firðinum og þykjast menn aldrei hafa séð slíkt síldarmagn áður, allur sjór morandi í síld. Síldartorfur hafa sést hér inni á höfn, en mjög sjaldgæft að síld hafi gengið hér inn á fjörðinn, fyrr en þá að haustinu, eftir að skip hafa verið farin.

 

Um síðustu helgi voru hér í Siglufirði saltaðar 45 þúsund tunnur. Á Eyjafirði 7 þúsund á Ströndum milli 6 og 7 þúsund, en þar fyrir vestan mjög lítið.

 

Nú munu hér söltuð milli 60 og 70 þúsund og mikið á Eyjafirði; þangað hefur svo mikið verið sent héðan þessa viku, vegna þess að ekki varð tekið á móti hér í svipinn.

 

Alltaf virðist síldarmagnið verða meira og má því búast við sömu veiði fram á haust, haldist góð tíð.  

Fram, 14. ágúst 1920

Síldarbræðsluverksmiðja hinna    "Sameinuðu. íslensku verslana" verður að líkindum ein um bræðslu í ár hér í Siglufirði.  Goos og Bakkevíkur verksmiðjurnar starfa hvorugar, að sögn, að þessu sinni.

Frétt í Fram, 11. september 1920

Síldin.

Veiði er nú mikið að hætta, aðeins nokkur reknetaskip sem hana stunda og hafa aflað lítið síðustu daga; glæðist reknetaveiðin ekki upp úr helginni munu þau öll hætta í næstu viku.

 

Vertíðin er stutt að þessu sinni en miklu betri en nokkur gerði sér í hugarlund áður en veiði byrjaði.

 

Alls eru á landinu veiddar nær 165 þúsund -- "fiskipakkaðar" tunnur, og koma þar af rúmlega 105 þúsund hér á Siglufjörð, þó hafa skip sem héðan héldu út veitt töluvert meira, en neyddust til að sigla með afla sinn á aðra staði (Eyjafjörð) vegna þess að ekki varð tekið á móti hér.

 

Siglufjörður hefur áþreifanlega sýnt það í ár, að hann ber höfuð og herðar yfir allar aðrar veiðistöðvar norðan og vestanlands, þegar um síld er að ræða og hefur hin ótæmanlega auðsuppspretta sem hér var úti fyrir í sumar borgið orðstír hans og gengi um langan aldur.

Fram, Auglýsing 16. nóvember 1920 

Þeir sem óska eftir að fá keypt Síldarmjöl eru beðnir að senda pantanir sínar til skrifstofu h.f. Hinna sameinuðu íslensku verslana, hið allra fyrsta.

 

Mjölið er ábyggilega fyrsta flokks.

Sýnishorn eru Ókeypis látin í té hér í Siglufirði. Verðið er kr. 18,50 pokinn 35 kg.

B. Vestesen.