Fiskimjölsverksmiðju. er í ráði að útgerðarmenn hér og á Eyjafirði byggi hér í vor. Verður hennar nánara getið síðar.
Frétt úr Siglfirðing, 18. maí 1929
Vinnustöðvun.
Verksmiðja dr. Paul hafði fengið leyfi stjórnarráðsins til þess, að nota hér við verksmiðju sína 7 erlenda verkamenn.
Verkamannafélag Siglufjarðar hefir út af þessu samþykkt að leggja verkbann á verksmiðjuna og jafnframt hafa jafnaðarmennirnir í bæjarstjórninni mótmalt aðgerðum stjórnarráðsins.
Það er glöggur spegill á skilning bæjarfulltrúanna á hag þessa bæjar, sem falið hefir þeim forsjá mála sinna, að þeir æsa verkalýð bæjarins upp til ólöglegra ofbeldisverka og til þess, að stöðva atvinnurekstur eins stærsta skattþegns bæjarins og atvinnuveitanda, og virða ráðstafanir ríkisstjórnarinnar að engu.
Það hefir nú orðið að samningum, að Verkamannafélagið tekur að sér uppskipun, á kolum og salti, sem verksmiðjan þarf, - með því skilyrði, að hinir 7 útlendingarnir komi þar ekki að.
Frétt úr Siglfirðing, 1. júní 1929
Nýbyggingar eru fjölda margar í smíðum hér í bænum í vor.
Má þar tilnefna Fiskimjölsverksmiðjuna sem útvegsmenn á Siglufirði og Eyjafirði eru að láta byggja undir Hafnarbökkum, stórt þriggja hæða hús, sem Ingvar og Gunnlaugur Guðjónssynir byggja, einnig þar; - stórt sjóhús sem Málmkvist Einarsson lætur byggja; sjóhús og salthús sem Friðleifur Jóhannsson ofl. byggja milli Ramma og Edv. Jacobsens. -
Tynes byggir stórt sjóhús og aðgerðarpalla við bátahöfnina tilvonandi, og hefir fengið hingað eitthvað af vélum til dýpkunar á henni. -
Karl Sturlaugsson hefir byggt íbúðarhús nyrst við Suðurgötu. - Kjötbúðin og Kaupfélag Verkamanna byggja við Aðalgötu, og neðar byggir Alfons Jónsson verslunarhús; - Ásgeir Pétursson lætur byggja stórt íshús með fyrirhugaðri vélafrystingu milli Vetrarbrautar og Tjarnargötu.
Og síðast en ekki síst má nefna síldarbræðsluverksmiðju ríkisins, sem nú mun afráðið, að byrjað verði bráðlega byggja á gömlu Söbstads lóðinni
Auk þess, hafa í vetur og vor verið byggð allmörg íbúðarhús, og verið að byggja fleiri, breyta húsum og bæta við þau, þar meðal lætur Hertervíg bakari byggja það ofan á brauðgerðarhús sitt.
Þá má einnig nefna, að "Shell" er að láta setja upp tvo olíugeyma í Hvanneyrarkrók og byggja þar skúra og Olíuverslun Íslands er byrjuð á undirbúningi hins sama á Kambi.
Einnig er víða verið að gera stórfeldar aðgerðir á bryggjum og sjópöllum.
Frétt úr Siglfirðing, 13 júlí 1929
Slys.
A laugardaginn var verið að reisa reykháfinn á Fiskimjölsverksmiðjunni, bilaði þá stroffa og skall hann yfir sig.
Yfirsmiðurinn bjargaði sér sennilega frá bana, með því að stökkva niður úr margra metra hæð Sakaði hann lítið annað en að hann handleggsbrotnaði.
Frétt úr Siglfirðing, 15. júní 1929
Síldarbræðslustöð ríkisins
er nú boðin út, bygging hennar hér á Siglufirði, bæði efni og vinna. Hinsvegar hefir heyrst, að ekki gangi saman um sölu á lóð undir hana.
Eru þeir hér staddir nú, Pétur Ólafsson og Böðvar Bjarkann, að sögn í samningaleitunum um það mál.
Ekki telur Siglfirðingur bræðslustöð þessa svo mikið keppikefli fyrir bæinn, að vert sé að hann gefi stjórn Einkasölunnar sjálfsdæmi til hagsbóta fyrir þetta fósturbarn hennar.
Hér er nóg af grút og ólykt fyrir, en tvísýnt um annað sem stöð þessi færir bænum.
Frétt úr Siglfirðing, 15. júní 1929
Vinnustöðvun í Bakka.
Á þriðjudagsmorguninn kom m.s. Höskuldur inn með um 70 tunnur af síld til H.f, Bakki.
Voru þar að vinnu á stöðinni, bæði við að frysta síldina og annað, 10-12 karlmenn, nokkrar konur, 2 smiðir og nokkrir smádrengir við beinaþurrkun.
Um 11 leitið var fólk þetta umkringt af mannsöfnuði, sem skipaði þeim að hætta vinnu, hrifsaði af þeim áhöld og ílát og spillti niður síldinni.
Auk þess höfðu forsprakkarnir óviðursemileg orð og hótanir, sérstaklega við konurnar.
Þeir sem forgöngu höfðu að "herferð þessari, voru þeir Hermann bæjarfulltrúi, Einarsson, Gunnar grjótkvarnarverksstjóri bæjarins, Þóroddur Guðmundsson sem verið hefir hér lögregluþjónn, Sigurður Gunnlaugsson samvinnuskólapiltur og Halldór einhver Arnarson aðkomupiltur, en kunnugir fullyrða, það að aðalvígstöðvarnar hafi verið á símastöðinni.
Flokkurinn krafðist nú þess, að öll vinna í Bakka hætti, nema því aðeins, að þeir sem þar ynnu fengju kaup eftir taxta Verkamannafélags Siglufjarðar -
Auðvitað sáu þessar fáu hræður sér ekki annað fært, en hætta vinnu, þar sem slíkt ofurefli var að etja, enda gátu þeir búist við því, að verða fyrir líkamlegu ofbeldi.
Hinsvegar lýstu verkamenn í Bakka því yfir í heyrandi hljóði, að þeir væru samningsráðnir þar og ekki í Verkamannafélagi Siglufjarðar og að vildu fúsir vinna fyrir það kaup sem um væri samið.
Afleiðingin af herferð þessari varð sú, að vinna var stöðvuð algerlega í Bakka og að 40-50 tunnur af síld urðu þar ónýtar.
Fengu sjómenn þeir, sem nota áttu síldina ekki heldur að frysta hana sjálfir og eins urðu smádrengirnir Siglfirsku að hætta að þurrka beinin!
Bæjarfógeti var kvaddur til að koma, en kom ekki og taldi nærveru sína þýðingarlitla. -
Vér erum þar á gagnstæðri skoðun. Teljum vér a. m. k. Þórodd hafa haft svo mikið álit á borðalagðri húfu og gyltum hnöppum undanfarið, að hann hefði glúpnað við nærveru fógeta, því um það, að hér hafi verið ofbeldisverk og lagabrot framið, eru víst allir sammála um.
Heyrst hefur að H.f. Bakki muni fara í skaðabótamál útaf vinnustöðvuninni og skemmdum síldarinnar.
Frétt úr Siglfirðing, 29. júní 1929
Síldarbræðsluverksmiðjur ríkisins.
Bæjarstjórnarfundur var haldin á mánudaginn, aðallega út af samningunum um lóðina undir verksmiðjuna.
Var þar samþykkt með 8 samhljóða. atkvæðum (Fanndal greiddi ekki atkvæði) að láta lóðina alla af hendi sunnan íshúss og suður að lóðartakmörkum og vestur á við eins langt og bærinn á, og með öllum mannvirkjum sem bærinn á, á lóðinni, fyrir 200 þúsund. kr. í hlutabréfum verksmiðjunnar.
Verksmiðjan sé undanþegin hafnarbryggjugjaldi af efni til byggingarinnar og hafi frítt vatn þar til ný vatnsæð er lögð að henni.
Umboðsmenn ríkisstjórnarinnar, þeir Bjarkann og Pétur Ólafsson héldu lengi fast við það, að fá verksmiðjuna undanþegna bryggjugjaldi að öllu og síðar að hálfu leiti, en létu að síðustu undan.
Má nú telja það afgert, að verksmiðjan, verði reist hér og sennilega byrjað eitt hvað á verkinu í haust.
Frétt úr Siglfirðing, 29. júní 1929
Sjómannakaupdeila.
Þess var getið í síðasta blaði, að samningar hafi tekist milli sjómanna félaganna í Hafnarfirði og Reykjavík og eigenda línubáta, um kjör á síldveiðum í sumar, það hefir upplýst síðar, aðeins samdist um það, að kjörin yrðu hin sömu og kæmu til að verða hér norðan lands.
Afleiðingin er sú, að hvorutveggja, sjómenn og útgerðamenn á Akureyri hafa nú, eftir árangurslausar samningatilraunir, auglýst taxta sinn.
Krefjast sjómenn 38 % af afla sem skiptist í 15 staði og eitthvað minna af þeim skipum sem geta tekið upp báta.
Útgerðarmenn bjóða hinsvegar sömu kjör og í fyrra 33 1/3 % afla skipt í 15 hluti, eða 35 % sem skiptist milli allra sem á skipinu eru.
Báðir partar sýnast alráðnir í því, að halda málinu til streitu.
Síld er nóg hér úti fyrir og fiskiflotinn í verstöðvunum liggur inni sökum beituskorts en skipin fá ekki að fara út vegna deilunnar til að afla honum beitu.
Eitt skip frá Akureyri, Helgi magri fór út í morgun (27.) og sennilega fer Regin út næstu daga, skipshöfn í hann, kom frá Ísafirði með Drottningunni.
Hvað segir Einkasalan um þetta? Hverjir eiga að afla í tunnur þær, sem hún þegar hefir keypt ef skipin liggja bundin inni í höfn?
Síðustu fregnir herma, að samningar hafi tekist og sætt komist á.
Frétt úr Siglfirðing, 13. júlí 1929
Maður féll
ofan af palli nýju beinamjölsverksmiðjunni nú í vikunni og fékk heilahristing. Hefir hann ekki verið með fullu ráði síðan.
Frétt úr Siglfirðing, 20 júlí 1929
SÍLDVEIÐIN.
Í gærkvöld var veiði þeirra skipa, sem leggja bræðlusí1d, á land hér Siglufirði,orðin sem hér segir, talið í málum:
Síldveiðin hefir verið ágæt þessa viku og virðist vera mikið síldarmagn. Flaug "Veiðibjallan" sem hér er að rannsaka síldargöngur, segir mikla síld í Húnaflóa, - einnig síld á Skagafirði, Skjálfanda og víðar.
Söltun er aðeins lítillega byrjuð. Í gærkvöld var búið að salta hér samtals 5.600 tunnur og mun söltun ekki byrja verulega fyrr en 1. ágúst.
Í bræðslu hefir verið lagt upp, til Goos 24.000 mál og til Dr. Paul 32.000 mál.
Á Hesteyri var búið að leggja upp þ. 23. - um 36.000 mál Um "Ægir" er blaðinu ókunnugt.
( "Ægir", var bræðslan í Krossanesi , Aths. S.K.)
Frétt úr Siglfirðing, 30. júlí 1929
"Veiðibjallan" sú af flugvélunum sem hefir á hendi eftirlit með síldargöngum norðanlands, hefir flogið daglega seinnipart vikunnar.
Sökum rúmleysis verður skýrsla hennar um síldargöngur og hafís að bíða næsta blaðs. -
Sjómönnum og öðrum skal bent á, að skýrslur um ferðir hennar og kort yfir ísrek og síldargöngur, er daglega fest upp við tröppur símastöðvarinnar hér, og á Akureyri á skrifstofu einkasölunnar.
Hafa rannsóknir þessar ómetanlega þýðingu fyrir síldveiðarnar fyrst og fremst, en einnig fyrir siglingar.
Útvarpsstöðin í Reykjavík varpar út fréttum um ferðir Veiðibjöllunnar á hverju kvöldi.
Flugvélin hefir flogið hringflug hér, yfir bæinn og til Fljóta og Héðinsfjarðar og voru þátttakendur stórlega hrifnir.
Munu margir óska að hún gefi oftar kost á því.
Frétt úr Siglfirðing, 30. júlí 1929
Síldin.
Þegar blaðið er að fara í pressuna kemur, sú frétt, að allar bræðsluverksmiðjur séu yfirfylltar og geti ekki tekið á móti þeirri síld sem veiðist og að fleiri skip hafi orðið að moka afla sínum í sjóinn.
Þetta mun meðal annars stafa af því að Goos verksmiðjan og "Ægir" hafa bilað og vinna því tafist.
Virðist það þegar svona hagar, verða alleinkennileg ráðstöfun hjá Einkasölunni að banna söltun fyrir 1. ágúst.
Frétt úr Siglfirðing, 5. ágúst 1929
Skýrsla um síldarrannsóknir "Veiðibjöllunnar" vikuna 26. júlí til 2.ágúst.
Flogið var yfir alt síldarsvæðið frá Ísafirði og austur fyrir land. Síld er enn mikil á Húnaflóa og var í byrjun vikunnar afar mikil síld inn með öllu Vatnsnesi og á Steingrímsfirði, en í vikulokin að eins nokkur síld útaf Steingrímsfirði.
Síldin virðist vera að færast austur.
Við Skagaströnd og þar inn af, er síld, en torfurnar virtust smáar.
Við Skagatá hefir nokkur síld sést uppi við land, og inn undir Selvík, ennfremur á Drangeyjarsundi, en innarlega á Skagafirði hefur engin síld sést.
Útaf Siglufirði og Eyjafirði virðist töluverð síld, ennfremur sjást daglega torfur utanvið Ólafsfjörð og á Héðinsfirði hafa sést vænar torfur.
Fyrir austan þetta svæði er helst síld kringum Flatey, - hafa sést þar yfir 20 torfur 1-2 k.m. n.a. af Flatey og einnig á að giska 10 km. lengra í burtu. - Austar hafa sést síldartorfur en aðeins á strjálingi. --
Við Mánáreyjar hefir t. d, enn ekki sést síld, en á Þistilfirði hefir lengst af verið mikil síld.
Loks hefur sést, og alveg óvænt má segja, mjög mikil síld kringum Rit við Ísafjarðardjúp; stórar og þykkar torfur.
Frétt úr Siglfirðing, 23. ágúst 1929
Fiskimjölsverksmiðja Siglufjarðar er nú tekin til starfa, hefir hr. Gustaf Blomkvist staðið fyrir byggingu hennar og er hún með nýtísku vélum.
Bygging ríkisverksmiðjunnar skilar vel áfram. Er þar myndarlega unnið og verkstjórn öll gerhugsuð, svo framkvæmdir lenda ekki í því fálmi sem við hér sjáum svo oft endranær.
Frétt úr Siglfirðing, 23. ágúst 1929
Síldveiðin gengur vel. Er mikil síld bæði á Skagafirði og austur með. Léttir Veiðibjallan sjómönnum mjög síldarleitina.
Búið er nú að salta hér 62.600 tunnur og verka á annan hátt 14,080 tunnur.
Af bræðslusíld hefir verið lagt upp hjá Goos 45,000 mál og hjá Dr. Paul 48,000 mál.
Reknetaveiði hefir sama og enginn verið síðustu nætur.
Er nú smokkur kominn í síldina og verður hans talsvert vart í netin. Benda líkur til, að hver sé nú síðastur með síldina ef til vill, og má það teljast happ fyrir Einkasöluna, því nú má kalla að hér sé alveg tunnulaust.
Frétt úr Siglfirðing, 11 september 1929
Síldveiðin má nú teljast hætt að þessu sinni. Hefir hér verið saltað (og kryddað) samtals rétt um 80.000 tunnur – alt á vegum Einkasölunnar, - og selt í bræs1u hér 104 þúsund mál.
Ótalið er þá það sem mokað hefur verið í sjóinn.
Reknetbátar eru allir hættir nema þeir sem hafa reynt að afla beitu handa þorskveiðabátunum en fengið sára lítið.
Herpinótaskip eru einnig flestöll farin heim. Stöku skip stunda þó veiði enn og fengu sum þeirra smáslatta af síld þessa viku, helst inn í Eyjafirði.
Góð lagnetaveiði hefir verið undanfarið á Dalvík og Ólafsfirði. Sú síld sem veiðst hefir síðustu tvær vikur, hefir öll verið seld til beitu og frystingar.
Horfði hér til mestu vandræða sökum beituskorts, því flest íshúsanna hér eru hálftóm. Veldur því að nokkru það, að þau voru mörg síðbúin að taka á móti síld sökum vélainnsetninga, en hjá öðrum veldur fyrirhyggjuleysi.
Úr þessu hefir dálítið bæst síðustu daga, þótt talsvert vanti til, að það sé að fullu. Sagt er að Einkasöluna vanti nú tilfinnanlega bæði kryddsíld og síld verkaða á annan hátt, til þess að uppfylla bindandi samninga sem Einar Olgeirsson hefir gert, - suma að sögn, eftir að síldveiði var lokið.
Söltun á öllu landinu er um 124.000 tunnur og hefði það óefað getað verið og mátt vera meira, án nokkurrar hættu á að oftylla markaðinn.
Nokkur skip komu með herpinótarsíld af Skagafirði á sunnudagsnótt, sunnudag og mánudag, þar á meðal Sæfarinn og Björninn með um 300 tunnur hvor.
Síldin heldur sig þar alveg upp í fjörusteinum. Er hún mjög blönduð millisíld,
Frétt úr Siglfirðing, 28. september 1929
Slys.
Í Fiskimjölsverksmiðjunni vildi það slys til snemma á þriðjudagsmorguninn, að Eggert Theódórsson lenti með hægri höndina í þurrkaranum.
Þurfti að stöðva allar vélar til þess að losa manninn. Var hann strax fluttur á sjúkrahúsið og gerði læknir (Steingrímur Einarsson) við meiðslin sem reyndust allalvarleg; hafði höndin og handleggurinn upp að olnboga marist og flumbrast illa, bein brotnað í úlnliðnum og höndin brunnið nokkuð.
Eggert líður sæmilega og telur læknir líkur til að hann muni verða jafn góður af meiðslunum.
Frétt úr Siglfirðing, 2 nóvember 1929
Skip sekkur
Gufubáturinn Björgúlfur, eign Matthíasar Hallgrímssonar hér, var í förum fyrir ríkisverksmiðjuna við að flytja steypumöl frá Sauðárkrók og hingað.
Á fimmtudaginn var hann á leið hingað með fyrstu ferð sína, fullfermi.
Veður var hvasst á Skagafirði og er hann fór út fjörðinn, kom snögglega leki að skipinu og varð við ekkert ráðið, sökk það á 10 mínútum og komust skipverjar naumlega í bátinn og á honum til lands á Bæjarklettum. –
Voru vélamenn aðsettir, því þeir höfðu yfirgefið skipið fáklæddir. Skipverjar komu hingað með póstbátnum, Björgúlfur var tryggður í Danske Lloyd fyrir 30 þúsund krónur.