Fleiri síldarverksmiðjur
Í fyrra unnu þær síldarverksmiðjur, sem þá störfuðu, úr ca. 11,500 málum á sólarhring.
Í ár hafa, eins og kunnugt er, bæst við tvær nýjar verksmiðjur, nýja ríkisverksmiðjan á Siglufirði og Reykjarfjarðarverksmiðjan, sem hvorri um sig er ætlað að vinna úr ca. 2.400 málum á sólarhring, sem þó má búast við að í sumar verði ekki nema um 2.000 mál í hvorri.
Einnig er Grána á Siglufirði nú í fullum gangi, en hún gekk lítið í fyrra. Loks hafa verið gerðar talsverðar endurbætur á öðrum verksmiðjum.
Heildaraukningu á afkastagetu verksmiðjanna í sumar má telja ca. 6.000 mál á sólarhring. Alls geta því síldarverksmiðjurnar unnið úr um 17.500 málum á sólarhring.
Þrátt fyrir hina miklu afkastagetu verksmiðjanna hefir verið yfirfullt hjá síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, síðan um mánaðamótin júní og júlí. Um sama leiti fylltist hjá Dagverðareyrarverksmiðjunni.
Dagana 3-5. júlí barst þó ekki mikið að hér á Siglufirði né annarstaðar, en síðan hefir verið óslitin veiði,
Nú er einnig orðið yfirfullt hjá síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn og í Krossanesi. Reykjarfjarðarverksmiðjan komst i gang um tíma og vann sem svaraði 2.000 málum á sólarhring, en á fimmtudaginn þann 11. þ. m. rifnaði þar cylinder í gufuvél, sem rekur pressuna, svo að stöðvun hefir orðið þar í bili.
Til Sólbakkaverksmiðjunnar á Flateyri og Reykjarfjarðarverksmiðjunnar hefir borist meir en nægilegt hráefni síðan i byrjun mánaðarins og hjá Þeim getur allt fyllst á hverri stundu.
Síldveiðiflotinn er nú þriðjungi stærri en í fyrra og skipin byrjuðu yfirleitt veiðar hálfum mánuði til þrem vikum fyrr en i fyrra. Þessa miklu þátttöku má að nokkru leyti þakka betri horfum en áður um góða afgreiðslu hjá verksmiðjunum, en þó aðallega hækkuninni á hrásíldarverðinu, sem að mestu leyti byggðist á stórhækkuðu verði á síldarlýsi.
Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði hafa nú tekið á móti um 115 þúsund málum, en á sama tíma í fyrra aðeins ca. 22 þúsund málum.
Til allra síldarverksmiðjanna á landinu hafa nú borist samtals um 260 búsund mál. Á sama tíma í fyrra höfðu allar verksmiðjurnar tekið á móti um 64 þúsund málum og yfir allan síldveiðitímann í fyrra tóku þær á móti 452.715 málum.
Þó að mikið hafi verið að gert og margar verksmiðjur byggðar, þá er nú áþreifanlega komið í ljós, að betur má ef duga skal.
Ef eins vel tekst til og nú horfir með afla og sölu verksmiðjuafurða má búast við því, að nærri öll skip, sem með nokkru móti geta farið á síldveiðar, verði gerð út næsta sumar.
Jafnvel þótt ekki verði um aukningu síldveiðiflotans að ræða frá því sem nú er, Þá er samt brýn þörf í aukinni afkastagetu síldarverksmiðjanna.
Samkvæmt norsku samningunum hefir Krossanesverksmiðjan leyfi til þess að kaupa af norskum skipum allt að 60 prc. af þeirri síld, sem hún tekur á móti.
Það þarf að koma því til leiðar að Krossanesverksmiðjan kaupi eingöngu af íslenskum skipum. Því markmiði má ná með ýmsu móti. Koma þá aðallega þrjár leiðir til greina.
Fyrst, að fá því framgegnt við endurskoðun norsku samninganna, sem nú stendur fyrir dyrum, að síldarkaup verksmiðjunnar af útlendum skipum séu bönnuð, nema með sérstöku leyfi atvinnumálaráðherra.
Að sjálfsögðu sé þá gengið út frá því, að slíkt leyfi sé ekki veitt, nema þegar svo kann að standa á, að það sé til ótvíræðs hags fyrir Íslenska síldarútveginn.
Önnur leiðin er sú, að ríkið kaupi verksmiðjuna, fáist hún með viðunandi verði.
Þriðja leiðin er, að verksmiðjan sé tekin eignarnámi.
Sé fyrsta leiðin farin, verða verksmiðjurnar að greiða svo hátt verð fyrir hráefnið, að hún fái nægilegt af því í samkeppni við innlenduverksmiðjurnar eða selja verksmiðjuna að öðrum kosti.
Það þarf að hefjast handa þegar í stað um undirbúning að byggingu nýrrar síldarverksmiðju, sem bræði að minnsta kosti 2.400 mál á sólarhring. Verksmiðjuna þarf að byggja þannig, að auðveldlega sé hægt að auka afkastagetu hennar upp í 4.800 mál, ef ekki verður horfið að því ráði að hafa hana svo stóra þegar í upphafi.
Vel færi á því að stjórn síldarverksmiðja ríkisins beitti sér fyrir undirbúningi þessa máls.
Mér kæmi það mjög í óvart, ef sjómenn og útgerðarmenn stæðu ekki óskiptir á bakvið óskina um nýja síldarverksmiðju. Um hitt, hvar væntanleg síldarverksmiðja eigi að standa, verða að sjálfsögðu skiptar skoðanir, en ég býst við því, að Raufarhöfn, Sauðárkrókur eða Ingólfsfjörður myndu hafa mest fylgi.
Þegar rætt er um aukningu síldarverksmiðjanna þurfa menn að athuga það vel, enda þótt markaðurinn fyrir síldarlýsi sé mjög víður og ekki fyrirsjáanleg hætta á offramleiðslu á því að markaðurinn fyrir síldarmjöl er takmarkaður.
Undir viðskiptasamningum við Þýskaland er það að langmestu leyfi komið, á hverjum tíma, hvernig fer um sölu síldarmjölsins.
Lokist markaðurinn fyrir Íslenskt síldarmjöl þar í landi, er allur síldarverksmiðjureksturinn i voða. Þessu virðast þeir menn hafa gleymt, sem sýknt og heilagt eru að dreifa út rógi um þjóðverja og um Jóhann Jósefsson alþingismann, sem allra manna best og óeigingjarnast hefir unnið að því, að greiða fyrir
viðskiptum milli þessara frændþjóða.
Síldarútvegurinn þarfnast víðsýnna og hagsýnna forráðamanna sem skilja sitt hlutverk, þá getur útvegurinn aukist og blómgast meir en nokkurn órar fyrir.
Sveinn Benediktsson. |