Sveinn Benediktsson.
Mörður týndi tönnum, til það kom af því,
hann beit í bak á mönnum, svo beini festi í.
Þó er gemlan eftir ein.
Það er hin hola höggormstönn
helst er vinnur mein. (Gömul þjóðvísa).
Sveinn Benediktsson, spinnur lopann enn í Morgunblaðinu. Hann heldur auðsjáanlega að það muni duga að "endurtaka lygina sex sinnum", þá verði hún að sannleika, eða verði að minnsta kosti "höfð fyrir sannleika". - Hann staglast enn á að ég hafi selt lýsi í heimildarleysi haustið 1931 og látið ganga frá reikningum verksmiðjunnar röngum og brengluðum 1930.
þó ég sé fyrir löngu síðan búinn að sanna að ég hafði fullt umboð til lýsissölunnar og frá reikningunum var gengið í í fjarveru minni (var í útlöndum) með áætluðu verði nokkurs hluta framleiðslunnar, sem svo reyndist lægra en áætlað var, vegna þess, að Sveini tókst að aftra sölu, meðan hægt var að fá sæmilegt verð fyrir afurðirnar.
Nú síðast leggur hann aðallega áhersluna á hvað ég sé illviljaður sjómönnunum, og vilji ekki greiða hærra verð fyrir hráefnið en svo, að líkur séu til að verksmiðjurnar beri sig.
Það er alveg satt, að ég vil umfram allt, að verksmiðjurnar séu reknar með þeirri gætni að þær beri sig. Með því tel ég að sjómönnunum sé mestur greiði gerður.
Verksmiðjurnar eru líftaug síldveiðanna, og hrun þeirra mundi um leið, að allmiklu leyti, verða hrun sjómannastéttarinnar.
En meðal annarra orða: Er það af umhyggju fyrir því að sjómennirnir beri sem mest úr býtum, að Sveinn eys nú fé verksmiðjanna á báða bóga:
Til Gísla Halldórssonar ca, kr. 2000,00 i laun áður en hann tekur við framkvæmdastjórastarfinu; til Kristjáns nokkurs Einarssonar úr Hafnarfirði 550 kr. mánaðarkaup yfir september, en Kristján hætti vinnu á Raufarhöfn 1. september og fór þá strax til Hafnarfjarðar, og hefir ekkert unnið í þágu verksmiðjanna síðan, til Verkamannafélagsins "Þróttar" fimm hundruð króna skaðabótum fyrir að verkafólkið var ekki látið vinna nokkra tíma að lifrartöku í ófæru veðri, sem það vafalaust hefði beðið stórkostlegt heilsutjón af að standa úti í o. fl. o. fl. - sem allt rýrir möguleika fyrir hækkuðu verði fyrir hráefni.
Þá fer Sveinn mörgum orðum um andstöðu mína gegn endurbótum á verksmiðjunum - tilraunum vinar hans Guðmundar Jónssonar - því þær endurbætur, sem Sveinn nefnir að hafi verið gerðar - skilvindur, mjölsafnarar - eru ekki settar eftir tillögum G. J. og þeim hefði ég aldrei verið andvigur, heldur hvert á móti. -
En hvað snertir tillögur Guðmundar Jónssonar og það mikla gagn, sem þær eigi að gera, vísa ég til álits Trausta Ólafssonar forstjóra efnarannsóknarstofu ríkisins og styðst algerlega við það, þrátt fyrir það að Sv. Benediktsson virðist telja ætterni Guðmundar Jónssonar býsna gott sönnunargagn! -
Og það má svo sem geta nærri, að það er af umhyggju fyrir sjómönnunum að Sveinn og Co. hefir kastað um 10 þúsund krónum af fé verksmiðjanna í þessar tilraunir Guðmundar Jónssonar, sem T. Ó telur einskis verði og allir aðrir sem til þekkja skopast að.
Sveinn segir að ég hafi kært sig fyrir Tryggva Þórhallssyni atvinnumálaráðherra, en hann hafi "séð í gegnum óheilindavef" minn, og látið s i g sig sitja áfram í stjórn verksmiðjanna alla sína stjórnartíð.
Sveinn hefir í þessu, eins og flestu öðru, endaskipti á sannleikanum. Það var Sveinn sem kærði mig fyrir Tr. P. -eins og áður, hefir komið fram í ritdeilum okkar Sveins haustið 1933 - en ég sendi andsvör og gaf skýrslu um málið, með þeim árangri, að kæra Sveins var ekki tekin til greina, en ég endurskipaður í verksmiðjustjórnina, því um sama leyti féll umboð, mitt niður.
Umboð Sveins féll aftur á móti ekki niður fyrr en seint á þingtímanum þann sama vetur eða rétt áður en Tr. P. lét af stjórn og kom það því i hluta Magnúsar Guðmundssonar að skipa í verksmiðjustjórnina.
Og í hana skipaði M. G. mig tvisvar og í annað skiptið sem formann stjórnarinnar, þrátt fyrir undirróður Sveins og þrátt fyrir áskoranir helstu útgerðarmanna og skipstjóra sunnanlands - að því er Sveinn segir - um að víkja mér úr stjórninni.
En hvernig var það annars með þessar áskoranir. Þær hafa aldrei komið fram opinherlega, og M.G. gerði aldrei svo mikið sem að skýra mér frá þeim, en ég heyrði einu, sinni Óskar Halldórsson segja frá því í útvarpsræðu, þegar deilt var um það, hvar nýja verksmiðjan ætti að standa, að Sveinn hefði veturinn áður verið á þönum milli útgerðarmanna og skipstjóra með undirskriftarskjöl "annað þess efnis að fá þá til að andmæla því að verksmiðjan yrði reist á Siglufirði.
En hitt eitthvað persónulegt við Þormóð Eyjólfsson".
"En svo snerist Sveinn skyndilega í málinu", sagði Óskar, "hann fór nú að gera sér vonir um að komast í verksmiðjustjórnina að nýju og þurfti nú að finna ráð til að kaupa sér grið á Siglufirði og gerðist svo allt í einu talsmaður þess, að verksmiðjan yrði reist þar".
Þessi ummæli Óskars munu vera rétt, enda þekkti hann manna best sinn Læri-Svein.
En eðlilegt er að Sveinn hafi ekki kært sig um að flíka undirskriftunum mikið af því tvennu, að hann hefir hvorki langað til að sýna "snúningshraða" sinn né hitt, að undirskriftirnar gengu víst ver en hann vonaðist eftir, þrátt fyrir allt baktal hans og róg, og þrátt fyrir hin miklu ítök er hann þykist eiga í sunnlenskum útgerðarmönnum.
Þeir eru nú reyndar hættir að trúa Sveini fyrir skipum sínum hér nyrðra á sumrin en vera má að traustið og "ítökin" sé óbreytt.
Fátt sýnir betur hina heimskulegu og takmarkalausu ósvífni Sveins Benediktssonar en sú fullyrðing hans: Að Magnús Guðmundsson hafi aðeins skipað mig i verksmiðjustjórnina vegna vensla manna í Framsóknarflokknum, en sjálfur hafi hann sagt sér að hann bæri ekkert traust til mín.
Við Magnús Guðmundsson höfum þekkst lengi og veit ég að hvorugur leggur hinum til á bak, þrátt fyrir ólíkar stjórnmálaskoðanir, og hvorugur trúir Sveini, þegar hann reynir að bera illmæli milli okkar, en það hefir hann gert fyrr en nú, en hvað sem öðru líður, er það bein ósvífni við M. G. og árás á hann, að halda því fram, að hann tvískipi mann í stjórn verksmiðjanna, í annað skiptið sem formann stjórnarinnar, sem hann bæri ekkert traust til. (Hann lét mig meira að segja annast einan öll stjórnarstörf verksmiðjanna frá því síðsumars 1933 til 4. jan. 1934 eða rúma 3 mánuði. Slíkt traust hefir M. G. aldrei sýnt Sveini Benediktssyni.)
Fyrir nú utan að, það er ekki beinlínis trúlegt að venslamenn mínir í Framsóknarflokknum hafi meiri áhrif á Magnús Guðmundsson, en hans eigin flokksmenn: auðugir og áhrifamiklir ættingjar Sveins og vinir hans "helstu útgerðarmenn sunnanlands", og þar á meðal líklega sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins, sem Sveinn segir að hafi skorað á M. G. að láta mig fara úr stjórninni.
Sveinn Benediktsson hefir þráð það öllu öðru framar að verða einráður yfir ríkisverksmiðjunum.
Hann gekk að því með ráðnum hug að ryðja hverjum þeim úr vegi sem yrði honum "Þrándur í Götu".
Það tókst með Guðmund sáluga Skarphéðinsson.
Sveinn fylltist þá sigurgleði og í ofmetnaði sínum hét hann því að ég skyldi fara sömu leiðina; en það hefir reynst honum torsótt að framkvæma þá hótun.
Það taldi hann sitt mesta óhapp þegar Jón Gunnarsson varð framkvæmdastjóri verksmiðjanna.
Hann gat Sveinn ekki með nokkru móti haft að leiksoppi. Því varð hann að leita allrar sinnar kænsku til að koma honum burtu.
Ýmsum peðum var tefit fram til sóknar. Sjálfur stóð Sveinn að baki og bruggaði fjörráðin.
Vopnin eru ekki vandfengin þegar aldrei er hirt um hvort farið er með satt mál eða ósatt og tíðar er vegið að baki en brjósti.
Nú er Sveinn orðinn leiðtogi Alþýðuflokksfulltrúanna í Ríkisverksmiðju-stjórninni. Sigurvonirnar eru miklar. Ofmetnaðurinn gægist fram að nýju.
En því hika þeir nú félagarnir, og verða ekki þegar í stað við áskorun mínum að krefjast rannsóknar á störfum mínum í Ríkisverksmiðjustjórninni?
Er kannski þægilegra að standa í skuggunum og vega þaðan með dylgjum og ósvífnum ásökunum í von um að ekki komi til þess, að við þau þurfi að standa?
Þormóður Eyjólfsson
|