Svargrein.
Strax og ég frétti um þessa yfirlýsingu, sendi ég Nýja Dagblaðinu eftirfarandi:
Fjórir af starfsmönnum ríkisverksmiðjanna á Siglufirði virðast taka til sin og finna hvöt hjá sér til að gera athugasemdir við ummæli, sem ég hefi leyft Nýja Dagblaðinu að hafa eftir mér út af frávikningu Jóns Gunnarssonar, framkvæmdastjóra. -
Það lítur út fyrir að þeir hafi ekki lesið ummælin sjálfir, ef dæma skal ettir, hvernig þeir túlka þau, en líklega fengið um þau fremur óráðvandlega frásögn.
Ummælin eru þessi:
"Hann" - þ.e.J.G. -" hefir komið á fullkominni stundvísi, og beitt sér eindregið og með góðum árangri móti drykkjuskap starfsmanna verksmiðjanna".
Jón Gunnarsson hefir verið alger bindindismaður þann tíma sem ég hefi kynnst honum og mér er kunnugt um, að hann hvatti verkstjórana til bindindissemi og óskaði eftir að þeir hefðu eftir bestu getu áhrif á verkamennina um að halda sér frá vínnautn, og lagði fyrir þá að hafa strangt eftirlit með, að engum héldist uppi með, að vera undir áhrifum víns við vinnu.
Skil ég ekki í að neinn efi, að þess hafi verið meiri þörf, að vera þar vel á verði í sumar, frekar en nokkru sinni áður, þegar litið er til hinnar óhemjulegu aukningar, sem einmitt hefir orðið hér á áfengissölu, hlutfallslega meiri aukningu en nokkurs staðar annarstaðar á landinu.
þrátt fyrir það hefir síst borið meira á áfengisnautn meðal starfsmanna verksmiðjanna í sumar en undanfarið og í einstöku tilfellum, sem hægt væri að nefna, jafnvel minna, -
Er það gleðilegur vottur þess, að í verksmiðjunum hafi mótspyrna gegn áfengisnautn verið öfugri en annarstaðar. Þakka ég það mikið forgöngu framkvæmdastjórans, þó margir fleiri eigi Þar einnig þakkir skyldar. -
Voru orð mín því fremur sögð í viðurkenningarskyni til verksmiðju-mannanna, en ásökunar, og átti ekki að vera sneið til neinna sérstakra, þó ég nú eftir á sjái, að ef til vill hefir það ekki verið óeðlilegt, um að minnsta kosti tvo af þeim er undir athugasemdina skrifuðu - og hlotið hafa sektir fyrir að smygla áfengi í land úr flutningaskipi verksmiðjanna - að þeir héldu, að að þeim væri sveigt.
Því mótmæli ég harðlega, að ég hafi á nokkurn hátt komið með ásakanir í garð fyrrverandi framkvæmdastjóra O.Ottesen, sem ég viðurkenni sem prýðilegan reglumann. En aðstaða hans var að ýmsu leyti örðug, og hann kvartaði sífellt undan einum verkstjóranum við verksmiðjustjórnina, manninum sem nú kallar sig "yfirverkstjóra". - ekki veit ég með hvaða rétti hann gerir það; hann er að vísu eini verkstjórinn, sem er fastráðinn ársmaður verksmiðjanna, en þó enginn yfirmaður hinna verkstjóranna - kvartaði undan óstundvísi hans og slæglegu eftirliti af því að hann væri svo óstöðugur á vöktum.
Svo langt gengu þessar kvartanir, að á fundi 10. september 1933, samþykkti verksmiðjustjórnin eftir ósk framkvæmdastjóra, að leyfa honum að segja honum upp stöðunni. Af framkvæmdum á því varð þó ekki og mun hvorttveggja hafa valdið: Vægð Ottesens og það, að verkstjóranum mun hafa verið nokkurt aðhald í þessari samþykkt verksmiðjustjórnarinnar.
Það er alveg rétt, að Jón Gunnarsson er óvægari en Ottesen. Hann sendi bara tafarlaust eftir verkstjóranum, þegar hann kom ekki stundvíslega, en undan slíku aðhaldi hefir eðlilega sviðið, og þangað má vafalaust rekja allmikið af þeim andúðaröldum, sem reynt hefir verið að vekja gegn Jón Gunnarssyni.
Þormóður Eyjólfsson.
P. S.
Eftir að þetta er skrifað, heyri ég sagt að aðrir 4 starfsmenn verksmiðjanna hafi birt samskonar yfirlýsingu í Morgunblað, þar á meðal, Guðjón Jónsson verkstjóri og Peter Cornelius!! Þ.E.
|
|