»Mjölnir« setur met í ósannsögli.
Síldarverksmiðjur ríkisins u n n u fasteignaskattsmálið fyrir hæstarétti.
Bæjarstjóri Siglufjarðar dæmdur til að greiða málskostnað.
Í "Mjölni" 22. júní s.l. er grein með svohljóðandi feitletraðri fyrirsögn: "Fasteignaskattsmálið féll á Síldarverksmiðjur ríkisins í hæstarétti"
Og svo rekur hver missögnin aðra alla greinina út í gegn.
Þó það sé löngu alkunnugt og margsannað, að aðstandendur Mjölnis víla ekki fyrir sér að laga fregnir sínar eftir eigin geðþótta og meta sannleikann lítils, getur maður sumt ekki annað en furðað sig á að þeir skuli þora að fara með hin frekustu ósannindi, þar sem skjalfest og vottfest sönnunargögn liggja fyrir eins og t.d. í þessu máli, hinu svokallaða "Fasteignaskattsmáli Síldarverksmiðja ríkisins", sem er þannig til komið að bæjarstjórinn Áki Jakobsson krefur ríkisverksmiðjurnar um hærri fasteignaskatt en lög standa til eða kr. 23.302,00.
Til þess að sýna einu sinni rækilega hvílíkar rangfærslur og bein vísvitandi ósannindi Þóroddur Guðmundsson (eða bæjarstjórinn) leyfir sér að fara með, skulu nú birt hér staðlest atrit úr fógetabók Siglufjarbarkaupstaðar, og dómi hæstaréttar í þessu máli, ásamt yfirlýsingu Jóns Gunnarssonar framkvæmdarstjóra.
Hér kemur þá fyrst lögtaksgerðin:
Endurrit úr fógetabók Siglufjarðarkaupstaðar.
Ár 1938, miðvikudaginn 7. september var fógetaréttur Siglufjarðar settur á skrifstofu Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði og haldinn af lögfræðingi Jóni Sigurðssyni samkvæmt löggildingu dómsmálaráðuneytisins í forföllum hins reglulega fógeta með undirrituðum votum. Fógeti leggur fram símskeyti dómsmálaráðuneytisins um löggildinguna þingmáls sem nr. 1 og innlært svohljóðandi:
Fyrirtekið: að framkvæma lögtak hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, samkvæmt löglega birtum úrskurði, fyrir ógreiddum fasteignaskalti til Siglufjarkaupstaðar samkvæmt lögum, 69/1937.
Sem votta og virðingarmenn tilnefndi fógeti þá Christian L. Möller og Snorra Friðleifsson og undirrituðu þeir svohljóðandi eiðstaf. ++
Mættur er f.h. lögtaksbeiðanda, Siglufjarðarkaupstað, hr. bæjarstjóri Áki Jakobsson og leggur fram reikning að upphæð kr. 23.302. fyrir ógreiddum fasteignaskatti ríkisverksmiðjanna á Siglufirði-.
Reikningur þessi er þingmál sem nr. 2 og innfalið svohljóðandi, Krefst gjörðarbeiðandi, að lögtak sé gjört í eignum Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði til tryggingar skuld þessari og kostnaði við gjörðina.
Mættur er fyrir gjörðarþola hr. framkvæmdastjóri Jón Gunnarsson og er skorað á hann að framvísa eignum er löglaki verði teknar.
Jón Gunnarsson óskar búkað:
Ég mótmæli reikningnum sem röngum og óska úrskurðar um það, hvort lögtak skuli fara fram.
Áki Jakobsson óskar bókað: Ég mótmæli síðast bókuðu sem órökstuddu og krefst þess, að lögtak fari fram.
Jón Gunnarsson óskar bókað: Mat á fasteignum Síldarverksmiðja ríkisins og reglugjörð um fasteignaskatt til Siglufjarðarkaupstaðar, sýna það augljóst, að reikningurinn er rangur, fleiri rök í því sambandi eru eigi nauðsynleg. Óskar úrskurðar.
Áki Jakobsson óskar bókað: Ég tel að lóðum og mannvirkjum Síldaverksmiðja ríkisins sé þannig háttað, að mannvirki geti eigi fallið undir aðra liði en C lið 2. gr. reglugerðar um fasteignaskatt til Siglufjarðarkaupstaðar, sem greiðast skuli með 1% af fasteignamati.
Í þeim lið eru hinsvegar eigi teknar fram lóðir, svo að ég tel, að lóðir Síldarverksmiðja ríkisins geti eigi fallið undir annan lið en d. lið 2. gr., er greiðast skulu af 2%. Krefst þess því, að lögtak fari fram á kostnað gjörðarþola.
Var þá málið tekið undir úrskurð og uppkveðinn svofelldur úrskurður:
Með því að eigi verður litið svo á, að eigi sé óheimill að leggja fasteignaskatt á mannvirki og lóðir Síldarverksmiðja ríkisins samkvæmt löguni nr. 69 frá 1937, né heldur reglugjörð þeirri fyrir Siglufjarðarkaupstað, er hefir verið sett um þetta efni og þar sem að undantekningarákvæði 4. gr. laga nr. 69 frá 1937 virðist vera tæmandi, en Síldarverksmiðjur hinsvegar eigi þar upptaldar, þá verða eigi tekin til greina hin framkomnu mótmæli gjörðarþola. Fyrir því úrskurðast:
Hið umbeðna lögtak skal ná fram að ganga.
Úrskurðurinn lesinn.
Jón Sigurðsson.
Var þá framhaldið lögtaksgjörðinni og skorað á gjörðarþola, að framvísa eignum, er teknar yrðu lögtaki og benti hann á verksmiðjur og önnur mannvirki Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði, ásamt fylgifé og lóðaréttindum. Báðir aðilar féllu frá virðingu.
Lýsti fógeti þá yfir, að lögtak væri gjört í fasteignum og öðrum mannvirkjum Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði ásamt fylgifé og lóðarréttindum til tryggingar lögtakskröfunni og öllum lögmætum kostnaði við gjörðina, svo og dráttarvöxtum og fyrirbauð lögtaksþola að ráðstafa hinu lögtekna svo skert gæti rétt lögtakshafa, að viðlagðri lagarefsingu. Jón Gunnarsson óskar bókað, að hana muni áfrýja úrskurðinum og i lögtaksgjörðinni.
Fleira eigi fyrir tekið.
Uppl. staðfest. Rétti slitið.
Jón Sigurðsson
J. Gunnarsson.
Áki Jakobsson.
Vottar:
Sn. Friðleifsson.
Chr. L. Möller.
Rétt endurrit staðfestir,
Skrifstofu Siglufjarðar, 20. júlí 1939 f.h. Bæjarfógetans í Siglufirði
Hjörleifur Magnússon.
Skal hér sérstaklega bent á það sem raunar kemur skýrt fram í lögtaksgerðinni, að Jón Gunnarsson mótmælir hvergi f.h. verksmiðjanna að greiða fasteignaskattinn, hann neitar aðeins að greiða þann reikning sem fyrir liggur, af því hann sé rangur.
Þá kemur dómur hæstaréttar:
Ár 1939, miðvikudaginn 7. júní, var í hæstarétti í málinu nr. 102/1938
Jón Gunnarsson f. h.Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði gegn Bæjarstjóra Siglufjarðar f.h. bæjarsjóðs, uppkveðinn svohljóðandi dómur:
Áfrýjandi, sem skotið hefir máli þessu til hæstaréttar með stefnu 8. október f. árs, krefst þess: Aðallega að fjárhæð sú, sem lögtak er heimilað fyrir, verði lækkuð niður í kr. 17.151,00, en til vara að fjárhæðin verði færð niður í kr. 19.399,00 Ennfremur krefst hann málskostnaðar fyrir hæstarétti, hvernig sem málið fer.
Stefndi krefst þess hinsvegar, að lögtakið verði staðfest fyrir kr. 22.255,00, en til vara, að það verði staðfest að því er varðar kr. 19,399,00. Svo krefst hann og málskostnaðar fyrir hæstarétti hvernig sem málið fer.
Í máli þessu er deilt um, hversu mikinn fasteignaskatt áfrýjandi eigi að leysa af hendi til bæjarsjóðs Siglufjarðar af húsum, sínum, mannvirkjum og lóðarréttindum á Siglufirði samkvæmt reglugerð nr. 27 frá 1938, sem sett er með, heimild i lögum nr. 69 frá 1937, um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarstjórna.
Ber að ákveða fasteignaskatt þennan sem tiltekna hundraðstölu af fasteignamatsverðinu, sbr. 1. og 2. gr. greindra laga og 2. gr. greindrar reglugerðrar.
Skattinn skal reikna af heilum hundruðum fasteignamatsverðs, en brotum úr hundruðum skal sleppt sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.
Samkvæmt upplýsingum, sem fram hafa komið hér i dómi er fasteiguarnalið á húsum áfrýjanda og mannvirkjum, öðrum en bryggjum og pöllum, kr. 1.204.900,00.
Fasteignamat á bryggjum, pöllum og lóðarréttindum áfrýjanda er alls ósundurliðað kr. 510.300,00, en samkvæmt sundurgreiningu fasteignamatsmanna Siglufjarðar, sem til þess hafa verið dómkvaddir, koma af fjárhæð þessari kr. 285.480,00 á bryggjur og palla og kr. 224.820,00 á lóðarréttindi.
Samkvæmt 2. gr. c, sbr. 4 gr. reglugerðar nr. 27 frá 1938 verður fasteignaskattur áfrýjanda á húsum og mannvirkjum, þar með töldum bryggjum og pöllum, 1% af kr. 1.204.900,00 + kr. 285.400,00 = kr. 14.903,00.
Samkvæmt 2. gr. d, sbr. 4. gr. sömu reglugerðar, verður fasteignaskatturinn af lóðarréttindum áfrýjanda 2% af kr. 224.800,00 = kr. 4.496,00, samtals kr. 19,399,00.
Hinn áfrýjaði úrskurður og lögtaksgerð eign þannig að vera óröskuð að því er varðar kr. 19.399,00 en að öðru leyti ber að fella réttarathafnir þessar úr gildi.
Eftir þessum málslyklum þykir rétt að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir hæstarétti, sem ákveðst kr. 300.00,-
Því dæmist rétt vera:
Hinn áfrýjaði úrskurður og lögtaksgerð eiga að vera óröskuð að því er varðar kr. 19,399,00 en að öðru leyti úr gildi felld.
Stefndi, bæjarstjóri Siglufjarðar f.h. bæjarsjóðs, greiði áfrýjanda, Jóni Gunnarssyni, framkvæmdastjóra, f.h. Síldarverksmiðja ríkisins, Siglufirði kr. 300.00 í málskostnað fyrir hæstarétti.
Dóminum ber að fullnægja að viðlagðri aðför að lögum.
Að dómurinn sé samhljóða dómabókinni vottar hæstaréttarritari 7. júlí 1939.
Hákon Guðmundsson (sign).
Að síðustu er yfirlýsing Jóns Gunnarsson framkvæmdastjóra, sem sérstaklega er miðuð við þau ummæli Mjölnis, að fjárhagsnefnd hafi verið reiðubúin að semja við Ríkisverksmiðjurnar um að þær greiddu kr. 17.151,00 í fasteignaskatt:
Yfirlýsing.
Að gefnu tilefni lýsi ég því hér með yfir, að Síldarverksmiðjur ríkisins fengu ekki á s.l. ári tilboð frá Siglufjarðarkaupstað um að greiða lægra fasleignagjald en kr.23.302,00.
Það er rangt, að verksmiðjurnar hafi neitað s.l. ár að greiða fasteignaskatt til Siglufjarðarkaupstaðar.
Þær neituðu aðeins að greiða rangan reikning eins og bókun mín ber með sér við lögtaksgjörð þann 7. september 1938.
Siglafirði, þann 3. júlí 1939
J. Gunnarsson.
Hér með er þá sannað að málið fellur á Siglufjarðarkaupstað og:
-
Ríkisverksmiðjurnar hafa aldrei neitað að greiða lögmætan fasteignaskatt, en aðeins neitað að greiða rangan reikning.
-
Með hæstaréttardómnum er sannað að fasteignaskattsreikningur bæjarstjórans var rangur, því hann er lækkaður úr kr. 23.302,00(1) niður í kr. 19.399,00 eða um tæpar 4 þúsund krónur.
-
Krafan um greiðslu á kostnaði við lögtaksgerð, svo og dráttarvexti er felld úr gildi (sbr. dómsúrskurðinum).
-
Hæstiréttur dæmir Siglufjarðarkaupstað til að greiða Ríkisverk-smiðjunum kr. 300,00 í málskostnað.
-
Bæjarstjóri (eða fjárhagsnefnd) gaf ríkisverksmiðjunum aldrei kost á að greiða annan reikning en þann sem lagður var fram við lögtaksgjörðina.
Og svo kemur Mjölnir og segir: "Fasteignaskattsmálið féll á Síldarverksmiðjur ríkisins í hæstarétti".
Það er dálítið einkennileg kenning hjá blaði sem hefir lögfræðing að ráðunaut, að sá sem vinnur mál, eigi að greiða þeim sem tapar mátskostnað.
En vitanlega er hér ekki um misskilning eða fáfræði að ræða, heldur bláköld ósannindi, auðsjáanlega sögð til að reyna að dylja mistök bæjarstjóra í málinu, í trausti þess að annaðhvort verði ekki átt í að hrekja ósannindin, eða þá að þeir Þóroddur telji alþýðu manna í þessum bæ svo einfalda að þeir treysti sér til að telja henni trú um hvaða fjarstæðu sem sé.
---------------------
(1) Bæjarstjóri mun þó sjálfur hafa lækkað kröfuna fyrir hæstarétti um ca. 1 þúsund krónur. |