Borgarafundurinn. Það var fyrir nokkru búið að boða það í blöðum kommúnista bæði hér og í Reykjavik, að bæjarstjórn Siglufjarðar ætlaði að "kalla saman" borgarafund út af Rauðkumálinu, og láta meirihluta ríkisverkmiðjustjórnar, "standa fyrir máli sínu" á fundinum.
Á laugardaginn voru auglýsingar, stórar og rauðar, út bornar, og skyldi fundurinn hefjast kl. 3½ næsta dag í Bíóhúsinu.
Hver einstakur meðlimur ríkisverksmiðjustjórnarinnar fékk bréf, hvar honum var hátíðlega boðið að mæta á fundinum.
Eins og gengur og gerist, tókst ekki að byrja stundvíslega. Fólkið var að ryðjast inn, nokkur tími fór í að ákveða og aðgreina hvaða utanbæjarmenn fengju að fara inn og hverjir ekki.
Tókst það þó eftir nokkurt þjark, með þeim árangri, að sjómönnum og útgerðarmönnum var yfirleitt bannaður aðgangur og sömuleiðis skólapiltum, sem vinna í ríkisverksmiðjunum, en Ásgeir Blöndal, starfsmaður kommúnista og sonur Finns Jónssonar voru settir í virðingarsæti, og Jón erindreki var tilnefndur sem fundarritari. Var fundurinn því ekki settur fyrr en kl. 4.
Bæjarstjóri setti fundinn, og skipaði sem fundarstjóra A. Schiöth. Erlendur Þorsteinsson uppbótarþingmaður, tók fyrstur til máts. Kvaðst hann rekja sögu málsins, og las upp fjölda bréfa og skeyta.
Þá las hann upp ýmsar kostnaðarætlanir, og þó ekki nákvæmlega, nema síðasta álit Þórðar Runólfssonar, vélaeftirlitsmanns ríkisins.
Ekki treystir sá er þetta ritar sér til að endursegja ræðu Erlendar, og hefir engan hitt sem man neitt að ráði úr henni, enda virtist mergurinn málsins og það sem stefnt var að, koma fyrst í endalokin, þegar ræðumaður fór að ryðja úr sér persónulegum skömmum yfir atvinnumálaráðherra og Þormóð Eyjólfsson.
Stóð ræða Erlendar yfir, nokkuð á annan klukkutíma. Bað þá Þormóður Eyjólfsson um orðið og krafðist þess,, að meirihluti ríkisverksmiðjustjórnar, sem boðið var á fundinn til þess að "standa fyrir máli sínu" fengi jafnlangan ræðutíma og Rauðkumenn.
Þessu neitaði fundarstjóri og kvað þrjá menn vera á mælendaskrá auk Erlendar en að ræðum þeirra loknum skyldi meirihluti ríkisverksmiðjustjórnar fá að tala í 20 mínútur, og Þormóður ef til vill, eitthvað að auki (fundinum þurfti að vera lokið kl. 7½ vegna bíósýningar), sem bæjarfulltrúi, en síðustu 20 mínútur skyldu Rauðkumenn fá.
Var þessi úrskurður fundarstjóra síðan borinn undir atkvæði og samþykktur. Var þá háreysti og hark svo mikið í fundarsalnum, að ekki munu aðrir en þeir, sem fremstir sátu, hafa heyrt hvað verið var að bera undir atkvæði, en Rauðkumönnum hafði verið þar vandlega raðað, og voru það þeir sem mestan hávaðann gerðu.
En mitt í hávaðanum heyrðist hrópað: "Við skulum henda þeim út." (meirihlutanum).
Fullyrða margir að það hafi verið rödd bæjarstjóra Áka Jakobssonar, mannsins sem undirritaði boðsbréfin til ríkisversmiðjustjórnarmannanna.
Þegar úrskurðurinn hafði verið samþykktur, gekk meirihluti verksmiðjustjórnarinnar af fundinum, en Óli Hertervig bæjarfulltrúi tók til máts.
Ekki fékk hann þó gott hljóð, því þegar meirihlutinn var farinn, komst fundurinn hálfgerða upplausn og gerðist fátt sem í frásögur sé færandi eftir það, því varla getur það til tíðinda talist, þótt fáeinir kommúnistar og hrapaðar íhaldsstjórnar, sem sátu til fundarloka, samþykktu að skora á þormóð Eyjólfsson að segja af sér fulltrúastörfum í bæjarstjórn, rétt eins og þeir væru að gefa það í skyn, að hann hefði komist í bæjarstjórn á þeirra atkvæðum(!!)
Nú iðrast Rauðkumenn sáran og óska að þeir hefðu aldrei til fundarins stofnað, því hvarvetna finna þeir andúð gegn sér fyrir þá aðferð, að bjóða ríkisverksmiðjustjórnarmeirihlutanum á fund, til þess að hlusta á fjóra menn skamma sig 2-3 tíma, leyfa honum svo af náð, að svara fyrir sig í ca. 20 mínútur og skamma hann svo aftur, það sem eftir var af fundartímanum.
Að maður nú ekki tali um það, að bjóða mönum, að koma á umræðufund, til þess að standa fyrir máli sínu, og tala svo um að kasta þeim út áður en þeir fá orðið.
Á þessum fundi mun ókurteisi og ofbeldi kommúnista hafa náð hámarki sínu, og er þá mikið sagt
|