Tillögur og greinargerð
Jóns Þórðarsonar og Finns Jónssonar í verksmiðjumálinu.
Tillögur
Við undirritaðir leggjum til að verksmiðjustjórnin mæli með við ríkisstjórnina:
Að Siglufjarðarkaupstað verði leyft að stækka síldarverksmiðjuna "Rauðku" þannig, að hún vinni úr 5.000 málum á sólarhring.
Að afköst S.R.30 verksmiðjunnar á Siglufirði verði aukin um 2.500 mál á sólarhring. Verði sú stækkun framkvæmd fyrir næstu síldarvertíð.
Jón L. Þórðarson (sign).
Finnur Jónsson (sign)
Greinargerð.
Það sem á milli ber hjá meiri og minnihluta verksmiðjustjórnar í máli þessu, er það að meirihlutinn leggur til að byggð verði viðbót við Dr. Pauls verksmiðjuna um 2.500 mál á sólarhring, en leggur hinsvegar á móti því, að Siglufjarðarkaupstaður fái að stækka "Rauðku" um 4.000 mál.
Mismunurinn á tillögum okkar er því aðeins 1.500 mál. Virðist því eigi vera að ræða um neinn verulegan ágreining um vinnsluþörf verksmiðjanna.
Eins virðist bæði meiri og minnihlutinn vera á einu máli um það, að nauðsynlegt sé að þessi stækkun komi til framkvæmda hið allra fyrsta.
Kemur þá til álita hverjar líkur eru til, hvort hægt sé fyrr að framkvæma tillögu meirihlutans eða minnihlutans.
Í þessu sambandi má benda á, að Siglufjarðarkaupstaður hefir þegar látið gera uppdrátt og áætlun, ennfremur að hann hefir lánstilboð á hendinni og því full vissa fyrir, að því er séð verður, að hann geti komið verksmiðju sinni upp fyrir næstu síldarvertíð.
Hinsvegar hefir ríkisstjórnin þegar í tvö ár haft heimild til að byggja nýja verksmiðju á Raufarhöfn, en eigi tekist enn sem komið er, að útvega fé til þeirra framkvæmda.
Að fenginni þessari reynslu teljum við enga tryggingu fyrir að nauðsynlegar nýbyggingar fari fram á Síldarverksmiðjum ríkisins fyrir næstu síldarvertíð, sérstaklega hvað viðkemur viðbót á Siglufirði, sem enn er engin heimild fyrir.
Aukning síldveiðiflotans á þessu ári er þegar orðin allveruleg og þolir stækkun síldarverksmiðjanna því enga bið.
Eftir áætlun framkvæmdastjórans Jóns Gunnarssonar, áætlar hann aflaaukningu, vegna aukningar skipastólsins, sem bætist við á þær verksmiðjur, sem unnu úr síld í fyrra 138.954 mál miðað við veiði 1938.
Í áætlun þessari hefir framkvæmdarstjóri eigi gert ráð fyrir því, að síldarsöltun var óvenjulega mikil sumarið 1938, eða ca. 100.000 tunnum meiri en venjulega.
Við aukningu skipastólsins eykst söltunin eigi að sama skapi, heldur hækkar bræðslusíldaraflinn að tiltölu við söltunina. Þessi aukning bræðslusíldaflans, nemur miðað við saltsíldarafla 1938 um 70.000 tunnur.
Nú er almennt talið að svo miklu tímafrekara sé að veiða síld til söltunar, heldur en til bræðslu, að líkur séu til, að skipin fiski jafn mörg mál í bræðslu eins og tunnur í salt.
Verður því sennileg aukning bræðslusíldaraflans, miðað við veiði 1938 vegna aukningar skipastólsins, eins og hann er þegar orðinn 308.954 mál.
Þú má geta þess, að miklu fleiri reknetabátar stunda veiðar nú í sumar heldur en nokkurn tíma fyrr, þannig að söltun af snurpunótaskipum minkar til muna af þeim ástæðum, en bræðslusíldarveiði þeirra vex að sama skapi.
Um aukningu veiðinnar vegna betri löndunarskilyrða, verði þessi aukning á verksmiðjum framkvæmd, er erfitt að fullyrða í tölum, þó hún hljóti að nema talsvert miklu.
Enn má geta þess að þar sem miklu álitlegra er að gera skip út á síldveiðar nú, heldur en áður hefir verið, vegna þeirrar gengisbreytingar sem gerð var á s.l. þingi, má fastlega gera ráð fyrir að síldveiðiflotinn aukist enn til muna.
Að þessu athuguðu vonum við fastlega að hæstvirt ríkisstjórn geti fallist á tillögu okkar í þessu máli.
Jón L. Þórðarson
Finnur Jónsson.
|