Hvar kviknar í næst?
Rauðkumálið er fullkomið alvörumál. Það hefir mikla þýðingu fyrir útgerðarmena og sjómenn að síldarbræðslurnar séu auknar á sem allra ódýrastan og hagfeldastan hátt. Það er fyllsta nauðsyn fyrir þjóðarbúskapinn að engum erlendum gjaldeyri sé eytt að óþörfu.
En á allra mestu getur það þó oltið fyrir Siglufjarbarkaupstað, þar sem um svo stórkostlega áhættu er að ræða, að gilt getur fjárhagslegt sjálfstæði bæjarins.
Þó er sú hliðin ótalin, sem alvarlegust er og skaðlegastar afleiðingar getur haft. - Málið hefir verið sótt af hinum ótrúlegasta ofsa og hatri og í sambandi við það kemur fram hin einkennilegasta viðburðaröð.
Ríkisstjórnin sendir Ríkisverksmiðjustjórn málið til umsagnar. Meirihluti verksmiðjustjórnar telur afkastaaukningu Ríkisverksmiðjanna ódýrari og hagkvæmari, en að bærinn endurbyggi Rauðku og semur um það ítarlegt, rökstutt álit.
Fyrir þetta verður verksmiðjustjórn fyrir hinu versta aðkasti. Einkum eru svívirðingarnar um Þormóð Eyjólfsson í kommúnistablöðunum alveg gengdarlausar.
Á hann eru bornar hinar tilefnislausustu og fjarstæðustu sakir, t.d. að hann hlakki yfir því þegar veiðiveður versnar og spilli jafnvel veiði og veðráttu með illum hug. Að hann rægi menn frá vegavinnu og yfirleitt er allt hugsanlegt gert til þess að skapa gegn meirihluta verksmiðjustjórnar æsingu og hatur.
A dansleik, þar sem Þormóður Eyjólfsson er þó ekki viðstaddur, heldur drukkinn Íhaldsmaður æsingaræður um Rauðkumálið og "fjandmenn bæjarins" og hrópar hústöfum: "Siglfirðingar skemmta sér ekki þar sem Sveinn Benediktsson og Þormóður Eyjólfsson eru"
Tekst með þessu að koma af stað ryskingum svo kalla varð til lögreglu. En íhaldsmaðurinn hældist um á eftir og Rauðkublöðin sögðu frá þessum atburði, sem hinu mesta afreki eða hetjudáð.
Litlu síðar hópast nokkrir verkamenn úr Rauðku að Ríkisverksmiðju-stjórnarmanni niðri á Tangabryggju, hafa í hótunum við hann og láta svo ummælt, að bara ef Þormóður væri nú þarna kominn líka, væri réttast að hengja báða á sömu spýtuna og kasta svo hræjunum í sjóinn.
Grunnhygginn kommúnisti fleiprar því í ógátu, að það hafi svo sem komið lit orða, að flytja Þormóð úr bænum eða kaupa mann lit höfuðs honum.
Verkamenn í Rauðku eru látnir skora á bæjarstjórn að halda borgarafund um Rauðkumálið. Bæjarstjórn verður fúslega við áskoruninni og auglýsir að meirihluti Ríkisverksmiðjustjórnar sé boðinn á fundinn, "til þess að standa fyrir máli sínu."
Í fundarhúsið er raðað eftir vissum reglum. Innstir sitja þorrinn af Rauðkumönnum og verkamenn úr Rauðku í röð þvert yfir húsið, þeir sömu sem áður höfðu verið í hótunarförinni á Tangabryggjunni o.fl.
Utanbæjarmönnum, sjómönnum, útgerðarmönnum og stúdentum, sem vinna í Ríkisverksmiðjunum, er af þar til kvöddum dyravörðum meinaður aðgangur.
Ræðumönnum er skipað þannig, að helst mætti takast að ná sem heppilegustum stíganda í æsingarnar. -
Erlendur er fyrstur með afar langa ræðu. Honum er ætlað að fræða fundarmenn um hina miklu ráðsnilli og hyggjuvit forgöngumanna Rauðku; hin mörgu bréf og skeyti Rauðkustjórnar og banka;-hinar merkilegu áætlanir og útreikninga Þráins og Þórðar, sem, "vondir menn" hefðu nú sundurtætt og glapið með því sýn bæði ráðherrum og bankamönnum.
Þá skyldi Ó.Hertervig tala næstur og gera grein fyrir hættum þeim og þrautum, sem hann og aðrir sendimenn bæjarins hefðu á sig lagt fyrir málstað Rauðku, með erfiðum ferðalögum á sjó, landi og í lofti, og mánaðarlöngum setum í Reykjavik í þjarki við óþjálan ráðherra, sem fúslegar hlustaði á illgjarna Ríkisverksmiðjustjórnarmenn, en vitra og góðgjarna Rauðkusendiboða.
Hlaut sú átakanlega þjáningarsaga að snerta mjög tilfinningar allra "sannra" Siglfirðinga.
Átti þá að vera komið hið rétta augnablik fyrir Gunnar og Þórodd að koma fram. Fyrst Gunnar fyrir hina þrautpíndu verkamenn, sem hljóta myndu frelsun frá sérhverri sorg og neyð, ef bærinn bara fengi að byggja Rauðku, og svo Þóroddur fylltur spánýjum rússnesk þýskum eldmóði, með kjarnyrði á vörum svo kröftug, að orðið gætu til íkveikju þar sem svo vandlega væri búið að leggja að eldi.
Þá fyrst, eftir ca. þriggja stunda æsingaræður flögra hinna öflugustu Rauðkuforingja, þótti öruggt að hleypa verksmiðjustjórnarmönnum að, allt frá þeim "mest vonda" til þess "minnst vonda" (sbr. P. Brekkan) - og hvernig færi þá?
Ef til vill hefðu menn átt að geta getið upp á hvers þá væri vænst, af orðum Hertervigs, er hann byrjaði ræðu sína, eftir að öll áætlunin var farin út um þúfur, af því Rauðkumennirnir þöndu blöðruna of harkalega svo hún sprakk. -
Meirihluti verksmiðjustjórnar var þá farinn af fundi og fjöldi annarra manna, og þeir sem eftir sátu dofnuðu skyndilega.
Hertervig sagði þá: "Margt fer öðruvísi en ætlað er. Það hefði mátt búast við, að það yrðu verkamennirnir, sem á að svipta alvinnunni, sem hleyptu fundinum upp".
Líklega hafa þó fæstir áheyrendurnir hugsað mikið útí hvað ræðumaður væri hér að fara, en nú kemur Neisti - sjálfsagt endurnærður af sínum langa svefni.
Hann segir frá borgarafundinum og eftir að blaðið hefir getið þess, að meirihluti Ríkisverksmiðjustjórnar hafi heimtað ræðutíma til jafns við þá, sem málinu voru fylgjandi, kemur þessi klausa: .- - "0g er þeir fengu það ekki, gengu þeir af fundi,- óáreittir, og var þar meira umurðalindi sýnt af fundarmönnum, en þeir Þormóður og Sveinn gátu vænst" (leturbreyting Einherja)
Menn stöðvast ósjálfrátt við þessi orð, - alveg steinhissa. Hvað á greinarhöfundur við? Er hann að kvarta undan að verksmiðjustjórnarmennirnir skyldu vera látnir ganga óáreittir af fundinum?
Ætluðust forsprakkarnir til annars? Voru hér brugguð einhver þau launráð, sem fundarmenn vildu ekki hlýða? Stóð almenningur á það hærra siðgæðastigi að hann virti að vettugi allt sem kann að hafa "komið til orða" hjá forsprökkunum, af því hann sá, að það var ekki heiðarlegum mönnum sæmandi? "Neisti" bregður þarna ljósi yfir viðburðaröð, samantengda eftir ákveðnum reglum: Eitthvað var valið handa öllum, sem von var um, að hafa áhrif á.
Sögurnar um Skarðvegsdeiluna. - illviljann í garð verkamanna og atvinnusviptingu átti að vera eitthvert sterkasta hatursvopnið. - Hlakkið yfir slæma veiðiveðrinu og bölbænirnar, var borið fram fyrir þá allra einföldustu og lítilsigldustu. Slagorðin "svik við bæinn", "fjandmenn bæjarins" o.s.frv. voru handa hinum "sönnu Siglfirðingum".
Ráðagerðir um aðför, og árásaræfingarnar á dansleiknum og bryggjunni, handa þeim slagsmálagjörnu og óþolinmóðustu.
Raupið yfir afreksverkunum: (hótunum, áflogum, hættuferðum, sniðugri málfærslu o.s.frv.) snerti þá metnaðargjörnu notalega. Og í fyllingu tímans, átti svo borgarafundurinn að koma, þar sem hinum æsta lýð skyldi saman safnað.
Undirbúningur fundarins, niðurröðun og aðgreining fundargesta, fundarsköpin og fyrirskipunin um að kasta verksmiðjustjórnarmönnunum út, - fyrirskipunin sem kem of snemma, eða áður en æsingin komst á hástig, allt virðist þetta stefna að ákveðnu marki og og geta valdið hermdarverkum, hættulegri þeim sem fremja, en þeim sem fyrir verða.
Fyrir nokkrum árum greip um sig einskonar trúarofstæki hér í bænum. Ný kirkja hafði verið byggð og gamla kirkjan var seld til niðurrits. Hún komst í eign kommúnista, og eftir að búið var að taka af henni turninn og breyta henni nokkuð, notuðu þeir hana um stund, sem fundarhús. En þá fylltist allstór flokkur manna heilagri vandlætingu. Skrifað var um þetta í Siglfirðing og sóknarnefndin harðlega vítt fyrir hirðuleysi sitt um gömlu kirkjuna.
Á drykkjusamkomu vandlætingasannanna var það aðalumræðuefnið, hvílík ógnar svívirðing það væri og saurgun á viðnum í gömlu kirkjunni, að hann skyldi komast í hendur kommúnistanna.
Athæfi sóknarnefndar, að selja hana, án þess að grennslast fyrst eftir, til hvers hún skyldi notuð, væri hreinlega glæpsamlegt. Réttast væri að "kveikja" í henni. Og hvorir fullvissuðu aðra um að sér þætti bara heiður að því að gera það.
Þetta snart svo tilfinningar tveggja ungra manna, sem á heyrðu, - og ekki höfðu þó áður sýnt neinn sérslakan trúarbragðaáhuga, - að þeir átsettu sér að framkvæma verkið og ávinna sér þannig þakkir og virðingu samborgaranna.
Íkveikjan mistókst reyndar, og mennirnir voru teknir fastir og hlutu dóm og mannréttindamissi fyrir tilraunina.
En undirróðursmennirnir, sem hugmyndina áttu og til æsinganna höfðu stofnað, hinir raunverulegu íkveikjumenn, sluppu alveg.
Hverjir kveikja nú í næst? |