Laugardagur 22. ágúst 1964
Í snjó í Siglufjarðarskarði
SUMARBLÆRINN er horfinn. Snjór fyrir
norðan, kuldi fyrir sunnan. Þetta gerðist svo snögglega að fólk
sem er í sumarleyfi á bílum sínum með tjöld og svefnpoka er
skyndilega farið að aka í snjó og kemst ekki heim fjallvegina.
Þegar byrjaði að snjóa fór fréttamaður blaðsins á Siglufirði með
nokkrum bílum sem voru að leggja á Siglufjarðarskarð.
Frásögn hans, sem gefur góða hugmynd um það basl
sem oft er að komast yfir skarðið, þó það takist, fer hér á
eftir.
Klukkan rúmlega 16
á miðvikudag lögðu 5 bílar héðan áleiðis yfir Siglufjarðarskarð:
Landrover jeppi, Rússajeppi og Chevrolett fólksbifreið, allar frá
Siglufirði og Wolgswagen og Saab bifreið frá Reykjavík.
Ég
lagði af stað með rússajeppanum með Wolkswagen í eftirdragi og
gekk ferðin vel til að byrja með, en brátt fór færð að þyngja,
dráttartaugin virtist ekki nógu sterk og slitnaði því nokkrum
sinnum. Landroverinn með Saabinn í eftirdragi smeygði sér fram
hjá en stöðvaðist fljótlega vegna snjóþyngslanna og brattar
brekkur. Landroverinn var aðeins með keðjur að framan og taldi
að ef tveir fullorðnir settust framan á vélarhlífina, þá myndi
“fatta” betur, eins og skíðamennirnir segja, og hann eiga
léttara með að hafa sig upp. Bað hann mig að setjast upp á
vélahlífina, ásamt öðrum manni. Sessunautur minn reyndist vera
Þorleifur Thorlacius forsetaritari og var hann ásamt Þórði til
laxveiða í Fljótá í Fljótum.
Strax og við vorum sestir gekk ferðin mun betur hjá Þórði, en
þurfti þó oft að moka því Saabinn var svo lár að hann flaut á
milli hjólfaranna, hjólin náðu ekki niður í hjólför Roversins,
þess vegna þyngdist drátturinn og Roverinn fór að spóla. Þórður
losaði þá bílana og ók einn upp á fjallið til að þjappa veginn,
en snéri svo við og tók Saabinn í tog.
Rétt fyrir klukkan 19 náðum við þessum tveim bílum úr sjálfu
skarðinu.
Hafði það tekið 2 ½ klukkustund leið sem hægt er
að aka á 15-20 mínútum þegar vegur er snjólaus of sæmilegur.
Ég hafði ákveðið að verða eftir uppi í háskarði
í kofa Slysavarnarfélagsins sem staðsettur er þar vegfarendum
til öryggis í slæmum veðrum og ófærum, og bíða þar eftir bílunum
þrem og síðan rútunni, sem von var á að sunnan um kvöldið.
Kofinn björg ef í nauðir rekur.
Kofi Slysavarnarfélagsins er að vísu engin höll,
en getur þó orðið mikil björg ef í nauðir rekur. Umgengni þarna
er all sæmileg, miðað við aðstæður, en þær eru ekki mjög
góðar.
Til dæmis gæti verið gott að hafa, þó ekki væri
nema nokkra nagla í vegg, svo hægt væri að þurrka af sér blaut
hlífðarföt og fleira.
Tveir Aladin ofnar eru þarna, að vísu var
hvorugur þeirra í lagi, en ég gat lagfært annan þeirra svo hægt
var að kveikja á honum, en þó þannig að hann ósar lítilsháttar.
Talstöð er þarna í góu lagi, smíðuð hjá
Landssímanum fyrir Slysavarnarfélagið, en stöð þessi er bæði
fyrirferðamikil og óhentug á þessum stað vegna gamaldags búnaðar
sem skapar hávaða (handsnúinn rafall) og illmögulegt er fyrir
einn mann að ná sambandi.
Er slíkur útbúnaður varla afsakanlegur nú á
“transistoröldinni” Þetta var útúrdúr.
Ég var búinn að vera nær klukkustund einn í
kofanum, án þess að sjá neitt til bílanna, en loks, klukkan að
verða 20 heyrðist í Wolkswagen bílnum. – Chevrolettinn hafði
bilað og orðið að snúa við í bæinn aftur og Rússinn sem aðeins
var með keðjur að aftan, gekk illa að tolla í slóðinni, þar sem
hann var breiðari og var hann því skilin eftir.
"Áhöfn” Rússans sem eingöngu hafði farið til að
hjálpa Wolkwagen, ýtti og mokaði svo bílnum til baka upp
skarðið. Þegar upp í háskarð var komið, var þar kastað mæðunni,
skrifað í gestabók Slysavarnarfélagsins.
Síðan var kallað í Siglufjarðarradíó og fengin
greið svör um rútuna sem var á leiðinni til Siglufjarðar.
|